• Hið íslenska þjóðvinafélag

Hið íslenska þjóðvinafélag

Lengst af hefur Hið íslenska þjóðvinafélag verið hálfopinbert útgáfufélag og starfsemin hin síðari ár einkum falist í útgáfu tímaritsins Andvara, sem hefur komið út frá árinu 1874, og Almanaks Hins íslenska þjóðvinafélags frá 1875. Upphafsmaður þessa útgáfustarfs var Jón Sigurðsson, fyrsti forseti félagsins, og er Andvari beinlínis framhald af Nýjum félagsritum, málgagni Jóns forseta.

Félagið var fyrsti stjórnmálaflokkur á Íslandi, stofnað af 17 þingmönnum laugardaginn 19. ágúst 1871. Jón Sigurðsson forseti Alþingis var kjörinn formaður. Hann valdi sér varaformann, Halldór Kr. Friðriksson alþingismann og yfirkennara við Lærða skólann. Enn fremur voru kosnir 42 fulltrúar fyrir sýslur landsins.

Þjóðvinafélagið mætti ef til vill skoða sem regnhlífarsamtök: Það var flokkur Jóns Sigurðssonar á þingi; það innihélt leynilega áróðursdeild, Atgeirinn; það var almennur og opinn félagsskapur, fyrir karla og konur, ríka og fátæka, framfarafélag á landsvísu; það var net trúnaðarmanna flokks Jóns Sigurðssonar á landsvísu sem telja mætti kerfisvæðingu eldra óformlegs tengslanets stuðningsmanna Jóns sem nú var aukið og eflt. Þar á meðal voru umboðsmenn Félagsritanna enda lá beinast við að Þjóðvinafélagið tæki við ritinu svo að úr varð Andvari. Eitt veigamesta starf þjóðvina fyrstu árin og mest raunar áður en félagið komst formlega á laggir var síðan að styrkja starf Jóns Sigurðssonar með samskotum um land allt. Það stóð síðan fyrir Þingvallafundum og þjóðhátíð áður en allur móður rann af félagsmönnum.

Stofnun félagsins hafði átt sér nokkurn aðdraganda, tilgangur félagsins var „að reyna með sameiginlegum kröftum að halda uppi landsréttindum og þjóðarréttindum Íslendinga, efla samheldni og stuðla til framfara landsins og þjóðarinnar í öllum greinum.“ Enn fremur var yfirlýst markmið félagsins að „vekja og lífga meðvitund Íslendinga um, að þeir séu sjálfstætt þjóðfélag og hafi því samboðin réttindi.“ Ávinna þyrfti þjóðinni frelsi og sjálfsforræði til þess að hún fengi notið sín til allra framkvæmda og framfara. Ekki leikur þó á því vafi að fá ef nokkur stjórnmálasamtök á Íslandi hafa látið jafn mikið að sér kveða eða verið jafn ráðandi í stjórnmálalífi landsins og Hið íslenska þjóðvinafélag var á árunum 1871–1874.

Eftir andlát Jóns Sigurðssonar varð enginn til að taka upp merki félagsins. Tryggvi Gunnarsson varð forseti og gerði það að útgáfufélagi. Það naut ekki síst opinbers stuðnings vegna þess að það var félag Jóns Sigurðssonar og starf þess helgað minningu Jóns forseta.

Fyrsti forseti félagsins var sem áður sagði Jón Sigurðsson, 1871–1879. Núverandi forseti, frá 2014, er dr. Guðrún Kvaran, prófessor emeritus.