Fróðleiksmolar úr Almanakinu

Um orðið almanak

Orðið „almanak“ hefir um lánga tíma verið tíðkanlegt, til að tákna með því bæklíng um dagatal ársins og skiptíng þess í mánuði, vikur og daga; þar er og skýrt frá árstíðunum, og hvernig þær skiptast, frá hátíðisdögum og öðrum merkidögum, frá túngla skiptum og öðru fleira. Nafnið er orðið gamalt, en þó ekki svo fornt á íslenzku, sem á öðrum túngum. Lærðir menn telja svo, að það sé komið fyrst upp á Bretlandi (Bretagne), og dregið af því, að breskur múnkur hafi tekið upp á því á þriðju öld eptir Krist, að búa til bækling um gáng sólar og túngls á árinu, og senda út í afskriptum, og hafi sá bæklingur verið kenndur við höfundinn, sem hét Guinclan, og kallaður „spádómur múnksins (al manach) Ginklans“. Aðrir segja, sem líklegra er, að orðið sé dregið af arabisku orði „al manah“, sem þýðir „tala“ eða reikningur; aptur aðrir segja það sé persneskt orð „elmenak“, sem þýðir nýjársgjöf, því stjörnuvitringar í Persalandi hafi verið vanir að gefa konúngi sínum almanak í nýjársgjöf á hverju ári.

Úr „Almanak, árstíðir og merkidagar,“ Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags fyrir árið 1878, bls 49.

Gott meðal við kali og kalsárum

Uxagall hefir reynzt gott meðal við kali og kalsárum. Maður tekur það að hausti til, og þurkar það við hægan hita, sker það síðan í sundur mjög smátt og sýður undir loki í spenvolgri mjólk, til þess það verður eins og þykkur vellingur eða íþunnur grautur. Þá er það er kólnað, er því riðið á kalið, og grær þá sárið fljótt, ef það er opið, en annars stillir það verkinn innan nokkurra daga, og læknar skaðann með öllu.

„Ráð til að lífga helfreðna,“ Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags fyrir árið 1875, bls. 47.

Forn mánaðanöfn og vetrarkoma

Gormánuð þann gumar kalla,
sem gjörir byrja veturinn,
Ýlir miskun veitir varla,
vondan tel eg Mörsuginn;
þá er von á Þorra tetri
þenki eg Góu lítið betri;
Einmánuður gengur grár
Gaukmánuður þar næst stár.
Eggtíð honum eptir rólar,
allvel lifir jörðin þá;
minnist eg á mánuð sólar,
mun eg fleira segja frá:
fjóra daga sá inn setur,
sem sumar lengra finnst en vetur,
Miðsumar og Tvímán tel,
tek svo Haustmánuði vel.
Í fornu letri finnst það skráð,
færist þetta svo í lag:
vil því segja ef vel fæ gáð
vetur komi á laugardag.


„Forn mánaðanöfn og vetrarkoma,“ Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags fyrir árið 1876, bls. 35.

Ráð til að verja járn við ryði

Maður skal láta tvo hluta járns, tvo hluta af antimón og einn hluta af tannín renna í sundur í saltsýru og kóngsvatni, ríða því síðan á járnið með svepp (njarðarvetti) eða pensli, og láta svo þorna. Þetta er dregið yfir, þángað til liturinn verður svo dökkur, sem maður vill hafa hann. Þegar hann er orðinn þur, þvær maður yfir með vatni, og nuddar með volgri línolíu þegar þurt er orðið að utan.

„Ráð til að verja járn við ryði,“ Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags fyrir árið 1877, bls. 58.