ANDVARI 2018

Forsida-Andvara-2018Aðalgrein Andvara 2018 er æviágrip Ármanns Snævarr, lagaprófessors og rektors Háskóla Íslands 1960-1969. Höfundur er Páll Sigurðsson, prófessor emeritus við lagadeild HÍ. Ármann var einn helsti lagamaður þjóðarinnar á sinni tíð. Hann ritaði margt um fræðigrein sína og var um skeið hæstaréttardómari. Þá sat hann í mörgum stjórnum og ráðum á sviðum fræða og menningarmála.

Í Andvara er fjallað um tvö stórskáld fullveldisaldar í minningu þess að öld er liðin frá því að Íslendingar fengu fullveldi. Hjalti Þorleifsson birtir ritgerðina „Lífhyggjumaður eða rómantíker? Nokkur orð um heimspekina í skáldskap Einars Benediktssonar.“ Jón Yngvi Jóhannsson ritar um Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness. Grein hans nefnist „Sjálfbært fólk. Um hag- og vistkerfi Sumarhúsa“.

Jón Sigurðsson fjallar um Ragnheiði Brynjólfsdóttur og eiðtökuna sem faðir hennar, Brynjólfur biskup Sveinsson, lét hana gangast undir sem frægt varð. Greinin heitir „Brún og upplit djarft til viljans sagði“, það er tilvitnun í ljóðaflokk Þorsteins Erlingssonar, Eiðinn.

Eftir Svein Einarsson er grein um Soffíu Guðlaugsdóttur leikkonu (1898-1948). Hún var ein helsta leikkona þjóðarinnar á sinni tíð, fór með mörg helstu kvenhlutverk leikbókmenntanna, eins og Steinunni í Galdra-Lofti sem var mikill leiksigur. Sveinn hefur meðal annars ritað sögu íslenskrar leiklistar frá upphafi til 1960, í þremur stórum bindum.

Loks er grein eftir ungan bókmenntafræðing, Kjartan Má Ómarsson. Hún nefnist „Dysin, varðan og verðandin“ og fjallar um Skólavörðuhæð í sögulegu ljósi.

Ritstjóri Andvara er Gunnar Stefánsson og skrifar hann pistil sem helgaður er fullveldisafmælinu. Meðal annars er þar rætt um framkomu þingmanna á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum í sumar. Ritið er 136 blaðsíður. Á kápu er mynd af málverki eftir Tryggva Ólafsson af Ármanni Snævarr.


Andvari hefur frá fornu fari einkum fjallað um sögu þjóðarinnar og íslensk menningarmál. Aðalgrein ritsins  hverju sinni er ítarlegt æviágrip einhvers forustumanns í þjóðlífinu. Hefur í þeim greinum á seinni árum verið ritað um stjórnmálamenn, forustumenn í atvinnulífi, helstu fræðimenn og listamenn, meðal annarra.  Á  sérstakri síðu má finna  skrá um æviágrip frá árinu 1976. Í  Andvara er ritað um gamlar og nýjar bókmenntir, frumsamdar og þýddar, og einnig fjallað um helstu fræðirit og ævisögur sem út koma.

Forsíða fyrstu útgáfu AndvaraFyrsta tölublað Andvara kom út í Kaupmannahöfn árið 1874, prentað í prentsmiðju Louis Kleins, og hefur komið út árlega síðan, ef frá eru talin árin 1878 og 1892, en þau ár féll útgáfa ritsins niður. Í upphafi skipuðu eftirtaldir menn ritnefnd:

  • Björn Jónsson
  • Björn M. Ólsen
  • Eiríkur Jónsson
  • Jón Sigurðsson
  • Sigurður L. Jónasson

Andvari kom út einu sinni á ári allt frá upphafi og fram yfir miðja 20. öld. Árið 1959 var ákveðið að auka útgáfuna í þrjú hefti árlega, stækka brotið og auka myndefni. Þá var tekin upp ný tölusetning árganga og nýr flokkur myndaður, auk þess sem eldri tölusetningu var jafnframt haldið. Áformin um fleiri en eitt hefti á ári gengu þó ekki eftir af ýmsum ástæðum og á árunum 1959–1967 komu út eitt til þrjú hefti á hverju ári. Frá og með árinu 1968 hefur Andvari komið út einu sinni á ári.

Upphaflega munu stjórnarmenn Þjóðvinafélagsins hafa annast ritstjórn Andvara, en með tilkomu nýja flokksins 1959 tóku sérstakir ritstjórar við útgáfunni. Fyrstu ritstjórarnir að hinum nýja hætti voru þeir Gils Guðmundsson og Þorkell Jóhannesson. Núverandi ritstjóri Andvara er Gunnar Stefánsson.