Almanak

Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags

Forsíða almanaks Hins íslenska þjóðvinafélags 2024

Árlega gefur Hið íslenska þjóðvinafélag út Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags fyrir næsta ár ásamt Árbók Íslands um árið fyrir útgáfuárið.

Nýjasta Almanakið er fyrir árið 2024, dr. Gunnlaugur Björnsson á Raunvísindastofnun Háskólans höfðu umsjón með útgáfunni. Arnór Gunnar Gunnarsson sagnfræðingur tók saman Árbók Íslands 2022.

Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags hefur komið út á hverju ári frá 1874, jafnan í lok árs. Efni þess hefur frá upphafi verið tvískipt. Annars vegar er um að ræða ítarlegt almanak fyrir árið sem framundan er þar sem m.a. er að finna margvíslegar gagnlegar upplýsingar um sjávarföll, helgidaga, gang himintungla, mælieiningar, tímabelti jarðar, og ríki heims. Hins vegar hefur Almanak Þjóðvinafélags að geyma Árbók Íslands um árið á undan. Þar er að finna yfirlit um árferði og ýmsa helstu viðburði, m.a. á sviði stjórnmála og menningar. Þá er greint frá andláti þjóðþekktra einstaklinga, mannfjöldaþróun og hagtölum er varða helstu atvinnuvegi.   

Fyrsti forseti Þjóðvinafélagsins var Jón Sigurðsson og var hann jafnframt ritstjóri Almanaksins og höfundur Árbókar. Sá sem lengst annaðist gerð Árbókar var Ólafur Hansson, en hann sá um hana í 40 ár, frá 1942 til 1982. Þá tók Heimir Þorleifsson við og var ritstjóri og aðalhöfundur til 2012 en vegna veikinda gat hann ekki lokið við handrit að Árbók Almanaks 2013. Þá tók Jón Árni Friðjónsson við verkinu og annaðist það fram að Árbók Almanaks 2022 er Arnór Gunnar Gunnarsson varð ritstjóri.

Sjá nánar grein Þorgerðar Sigurgeirsdóttur um Íslandsalmanakið og Almanak Þjóðvinafélagsins og efnisyfirlit almanaka Háskóla Íslands og Þjóðvinafélagsins á vef Almanaks Háskóla Íslands.

 Hér að neðan er mynd af titilsíðu fyrsta Almanaksins 1875.

Forsíða Almanaksins 1875

Efnisyfirlit fyrsta heftis Almanaksins er svohljóðandi:

  • Almanak um árið 1875
  • Íslands árbók 1873
  • Sólmerkin
  • Stjarna heiti norræn
  • Verðaurar og penínga reikningur
  • Brakúnar
  • Tafla yfir verð á fiski o.fl. (Skp. frá 10 til 30 rd)
  • Gátuvísur
  • Dulmæla vísur
  • Lagavísa Páls Vídalíns
  • Ráð til að lífga drukknaða
  • Ráð til að lífga helfreðna
  • Um að gjöra mjöl úr kartöplum
  • Reglur til góðrar fiskiverkunar