Andvari 2006 er kominn út

Andvari, rit Hins íslenska þjóðvinafélags, er kominn út. Þetta er 131. árgangur, hinn 48. í nýjum flokki. Aðalgreinin að þessu sinni er æviþáttur Eysteins Jónssonar, ráðherra og alþingismanns, eftir Ingvar Gíslason, fyrrum menntamálaráðherra. Eysteinn var um áratugaskeið einn helsti foringi Framsóknarflokksins, sat á þingi liðlega fjóra áratugi og kom að stefnumótun helstu örlagamála þjóðarinnar. Hann varð ráðherra allra manna yngstur og er einn þeirra sem lengst hafa setið á ráðherrastóli á Íslandi. Á seinni árum beitti hann sér mjög í náttúruvernd.

Annað efni Andvara er sem hér segir: Hjalti Hugason ritar um ljóðlist Snorra Hjartarsonar og Sigurborg Hilmarsdóttir fjallar um sagnagerð Stefáns Jónssonar. Þá lýsir Sveinn Einarsson leikstjóri aðferðum sínum við sviðsetningu rómaðrar Hamletsýningar á Akureyri 2002. Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar um Ferðabók Tómasar Sæmundssonar Fjölnismanns og Ármann Jakobsson fjallar um Hannes Hafstein, mat manna og lýsingar á honum fyrr og síðar, í tilefni af nýrri ævisögu Hannesar.

Ritstjóri Andvara er Gunnar Stefánsson og ritar hann hugleiðingu í upphafi ritsins að venju; hún fjallar annars vegar um umræður um hjónavígslu samkynhneigðra og hins vegar deilur um stóriðju og náttúruvernd.

Andvari er 180 blaðsíður. Oddi prentaði en Sögufélag, Fischersundi 3, annast dreifingu.