Fréttir

4.11.2008

Andvari 2008 er kominn út

Andvari, rit Hins íslenska þjóðvinafélags, er kominn út. Þetta er 133. árgangur, hinn fimmtugasti í nýjum flokki.

Aðalgreinin í ár er æviágrip Bjarna Bjarnasonar skólastjóra á Laugarvatni (1889–1970) eftir Kristin Kristmundsson, fyrrverandi skólameistara. Bjarni var skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni í þrjátíu ár og um skeið þingmaður Árnesinga og Snæfellinga. Hann tók við skólanum ársgömlum og styrkti hann verulega en átti líka manna mestan þátt í að efla Laugarvatn sem helsta skólasetur Suðurlands. Þannig hafði hann forustu um að koma á laggirnar bæði húsmæðraskólanum og menntaskólanum á staðnum.

Tvær ritgerðir eru í Andvara um skáldskap Steins Steinarrs í tilefni af aldarafmæli hans, höfundar séra Gunnar Kristjánsson og Guðmundur Andri Thorsson. Landflutningar, athuganir á náttúrumenningu í íslensku borgarsamhengi, nefnist grein eftir Önnu Jóhannsdóttur og Ástráð Eysteinsson. Gunnar Karlsson skrifar stutta grein um Jónas Hallgrímsson og Tómas Sæmundsson og Gerður Steinþórsdóttir birtir ritgerð um brautryðjandann Torfhildi Þ. Hólm og sögulegu skáldsöguna. Þá eru stuttar greinar eftir Sverri Jakobsson og Kristján B. Jónasson um tvær nýjar bækur, Bréf Jóns Guðmundssonar ritstjóra til Jóns Sigurðssonar forseta og bók Þorsteins Þorsteinssonar um skáldskap Sigfúsar Daðasonar.

Ritstjórinn, Gunnar Stefánsson, minnist í inngangsgrein Sigurbjörns Einarssonar biskups.

Andvari er 164 blaðsíður. Oddi prentaði en Sögufélag, Fischersundi 3, annast dreifingu. ISSN: 0258-3771.