Andvari 2012 kominn út
Andvari, rit Hins íslenska þjóðvinafélags, er kominn út. Þetta er 137. árgangur ritsins, hinn fimmtugasti og fjórði í nýjum flokki.
Aðalgrein Andvara er jafnan æviágrip einhvers íslensks merkismanns, sem haft hefur sérstök áhrif í þjóðfélaginu með lífsstarfi sínu. Að þessu sinni er fjallað um Róbert Abraham Ottósson, tónlistarmann og fræðimann, og ritar Árni Heimir Ingólfsson æviágrip hans. Róbert var þýskur að uppruna en kom ungur til Íslands og vann hér mikið og merkilegt starf að íslenskum tónlistarmálum. Æviágrip hans er hið fyrsta í Andvara um mann sem var erlendur í báðar ættir og fæddur og uppalinn í öðru landi, en vann Íslandi með þeim hætti að jafnan var litið á hann sem heimamann.
Aðrar greinar í Andvara eru sem hér segir: Sigrún Magnúsdóttir ritar um Hallgrím Scheving, kennara á Bessastöðum, Guðrún Kvaran um Jón Sigurðsson forseta og íslenska tungu, Ármann Jakobsson um Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson og Jón Þ. Þór um frændurna sögufróðu, Pál og Boga Th. Melsteð. Þá fjallar Ástráður Eysteinsson um Charles Dickens og íslenskar þýðingar á verkum hans, Hjalti Hugason um nýjar ævisögur þriggja íslenskra merkispresta um aldamótin 1900 og loks Árni Björnsson um missagnir í minningabók Jóns Böðvarssonar.
Ritstjóri Andvara, Gunnar Stefánsson, skrifar ritstjórnarpistil að venju og víkur að ýmsum atburðum ársins. Ritið er tæpar 190 síður. - Háskólaútgáfan, Dunhaga 18, hefur nú tekið við dreifingu Andvara af Sögufélagi.