Fréttir

15.1.2020

Andvari 2019 kominn út

Andvari, ársrit Hins íslenska þjóðvinafélags, er kominn út. Aðalgreinin að þessu sinni fjallar um séra Pétur Sigurgeirsson biskup. Höfundur hennar er Hjalti Hugason prófessor.

Aðrar greinar fjalla um þessi efni: Jón Árnason þjóðsagnasafnara, fyrirmynd hjóna í Páls sögu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar, austurríska rithöfundinn Stefan Zweig, Uppsala Eddu, teikningu í handriti og áhrifamátt hennar, og atriði í sögulokum Sjálfstæðs fólks eftir Halldór Laxness.

Ritstjóri Andvara hefur verið Gunnar Stefánsson og er þetta 35. og síðasti árgangur sem hann ritstýrir. Þetta er 144. árgangur, hinn 61. í nýjum flokki og er ritið 170 blaðsíður. Aðsetur ritsins er hjá Háskólaútgáfunni í aðalbyggingu Háskóla Íslands.