• Forsíða Andvara 2023

Andvari 2023 kominn út

Andvari, rit Hins íslenska þjóðvinafélags, er kominn út.

Aðalgrein Andvara 2023 er æviágrip Guðrúnar Helgadóttur alþingismanns og rithöfundar. Sigþrúður Gunnarsdóttir bókmenntafræðingur og framkvæmdastjóri Forlagsins ritar. Sigþrúður fjallar um langan og fjölbreyttan feril Guðrúnar en ekki síst um skáldverk hennar, hugmyndir og list. Andvari hefur um áratuga skeið birt rækilegar greinar um látna merkismenn, einkum ef ævisaga viðkomandi hefur ekki verið rituð.

Aðrar greinar í Andvara ársins eru eftir Sigrúnu Margréti Guðmundsdóttur, Ásdísi Egilsdóttur og Erlend Sveinsson, Jón Yngva Jóhannsson, Ingibjörgu Þórisdóttur, Jóhannes Helgason, Heimi Pálsson, Gunnar Kristófersson, Helgu Kress og Gísla Jökul Gíslason. Þær fjalla meðal annars um miðaldabókmenntir, sögu 20. aldar, íslenska leiklistar- og kvikmyndasögu, sögu fjölmiðlunar, sjónvarps og barnabóka og birt er efni sem ekki hefur áður sést á prenti. Efnið er þannig sem fyrr fjölbreytt og áhugavert. Auk þess eru birt fjögur erindi frá afmælismálþingi Hins íslenska þjóðvinafélags sem haldið var árið 2022, eftir Ólaf Ragnar Grímsson, Berglindi Ásgeirsdóttur, Peter Weiss og Maríu Elísabet Bragadóttur.

Ritstjóri Andvara er Ármann Jakobsson prófessor. Þetta er 148. árgangur Andvara en hinn 65. í nýjum flokki. Ritið er að þessu sinni um 240 síður. Aðsetur ritsins er hjá Háskólaútgáfunni í aðalbyggingu Háskóla Íslands.