Hið íslenska þjóðvinafélag 150 ára

Hið íslenska þjóðvinafélag var stofnað árið 1871 af 17 alþingismönnum og var markmið þess í upphafi að halda uppi réttindum Íslendinga, efla samheldni og stuðla að framförum lands og þjóðar á sem flestum sviðum. Fyrsti fundur félagsins var haldinn laugardaginn 19. ágúst 1871 þar sem Jón Sigurðsson var kjörinn fyrsti forseti þess, lög félagsins samþykkt og því valið heiti.

Hið íslenska þjóðvinafélag hefur frá upphafi staðið fyrir mikilvægri útgáfustarfsemi þar sem hæst ber tímaritið Andvari og Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags. Aðalfundir félagsins eru að jafnaði haldnir annað hvert ár í þingsal Alþingis og eiga þar seturétt alþingismenn og stjórn félagsins, en núverandi forseti er dr. Guðrún Kvaran, prófessor emeritus. Varaforseti er Gunnar Stefánsson útvarpsmaður og aðrir í stjórninni eru dr. Ármann Jakobsson prófessor, Björk Ingimundardóttir, fv. skjalavörður, og Karl M. Kristjánsson, sveitarstjóri og fv. aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis.

Fyrirhugað er að minnast afmælis Hins íslenska þjóðvinafélags á haustdögum þegar aðstæður í heimsfaraldrinum leyfa.