Vegleg bókagjöf

Í desember 2022 hafði Skúli Jónsson viðskiptafræðingur samband við Guðrúnu Kvaran, forseta Hins íslenska þjóðvinafélags, og bauð félaginu fyrir hönd móður sinnar, Ingu Gröndal, Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags að gjöf. Þetta eru árin 1900 til 2005, fagurlega innbundin í skinn af Jóni Antoni Skúlasyni verkfræðingi (1916–2007), fyrrum póst- og símamálastjóra, föður Skúla.

Ekki stóð á stjórn félagsins að þiggja þessa höfðinglegu gjöf. Guðrún Kvaran og Karl Magnús Kristjánsson, stjórnarmaður í HÍÞ, hittu Skúla og konu hans, Sigríði Björgu Einarsdóttur, í herbergi sem félagið hefur til umráða í húsi því sem eitt sinn hýsti Hótel Skjaldbreið, og tóku við bókagjöfinni sem nú prýðir hillur í skáp félagsins.