Andvari 2018

Forsida-Andvara-2018Aðalgrein Andvara 2018 er æviágrip Ármanns Snævarr, lagaprófessors og rektors Háskóla Íslands 1960-1969. Höfundur er Páll Sigurðsson, prófessor emeritus við lagadeild HÍ. Ármann var einn helsti lagamaður þjóðarinnar á sinni tíð. Hann ritaði margt um fræðigrein sína og var um skeið hæstaréttardómari. Þá sat hann í mörgum stjórnum og ráðum á sviðum fræða og menningarmála.

Í Andvara er fjallað um tvö stórskáld fullveldisaldar í minningu þess að öld er liðin frá því að Íslendingar fengu fullveldi. Hjalti Þorleifsson birtir ritgerðina „Lífhyggjumaður eða rómantíker? Nokkur orð um heimspekina í skáldskap Einars Benediktssonar.“ Jón Yngvi Jóhannsson ritar um Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness. Grein hans nefnist „Sjálfbært fólk. Um hag- og vistkerfi Sumarhúsa“. 

Jón Sigurðsson fjallar um Ragnheiði Brynjólfsdóttur og eiðtökuna sem faðir hennar, Brynjólfur biskup Sveinsson, lét hana gangast undir sem frægt varð. Greinin heitir „Brún og upplit djarft til viljans sagði“, það er tilvitnun í ljóðaflokk Þorsteins Erlingssonar, Eiðinn.

Eftir Svein Einarsson er grein um Soffíu Guðlaugsdóttur leikkonu (1898-1948). Hún var ein helsta leikkona þjóðarinnar á sinni tíð, fór með mörg helstu kvenhlutverk leikbókmenntanna, eins og Steinunni í Galdra-Lofti sem var mikill leiksigur. Sveinn hefur meðal annars ritað sögu íslenskrar leiklistar frá upphafi til 1960, í þremur stórum bindum.

Loks er grein eftir ungan bókmenntafræðing, Kjartan Má Ómarsson. Hún nefnist „Dysin, varðan og verðandin“ og fjallar um Skólavörðuhæð í sögulegu ljósi.

Ritstjóri Andvara er Gunnar Stefánsson og skrifar hann pistil sem helgaður er fullveldisafmælinu. Meðal annars er þar rætt um framkomu þingmanna á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum í sumar. Ritið er 136 blaðsíður. Á kápu er mynd af málverki eftir Tryggva Ólafsson af Ármanni Snævarr.